Alveg skýrt að hluti Reykjanesbrautar verður færður

Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, segir það alveg skýrt af hálfu bæjarins að hluti Reykjanesbrautar verði færður. „Aðalskipulag gerir ráð fyrir því og það er staðfest. Aðalskipulagið var unnið með hliðsjón af hugsanlegri stækkun álversins í Straumsvík en þó sú niðurstaða hafi orðið í íbúakosningunni að tillaga um stækkun hafi verið felld er engin breyting af okkar hálfu varðandi færsluna á brautinni.

Brautin er hugsuð þannig að hún tengist inn á atvinnusvæðið í Hellnahrauni og gert er ráð fyrir tvennum mislægum gatnamótum og ýmsum tengingum þannig að allt skipulag á svæðinu tekur mið af færslu brautarinnar og við erum þegar búin að úthluta stórum lóðum undir atvinnusvæði í samræmi við aðalskipulagið,“ segir Lúðvík. „Því er ekkert annað á döfinni en að brautin verði færð þegar hún verður tvöfölduð,“ bætir hann við. Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær getur tvöföldun á kaflanum og færsla hans dregist fram yfir 2011.

Aðspurður hvenær framkvæmdir geti hafist við færsluna segist Lúðvík hafa litið á það sem næsta áfanga að hefja nánari útfærslu á því verki í samvinnu við Vegagerðina þegar framkvæmdir við tvöföldun frá kirkjugarðinum að Krýsuvíkurafleggjaranum eru hafnar. „Við höfum séð það fyrir okkur að framkvæmdir gætu hafist árið 2010,“ segir Lúðvík og segist hann hafa viljað sjá það gerast í beinu framhaldi af þeirri breikkun sem nefnd er að framan. „Ég hef litið svo á að þetta sé forgangsverkefni hjá Vegagerðinni þannig að það kemur mér á óvart ef menn horfa fram á einhverjar tafir.“

Aðspurður segist hann munu fylgja því eftir að færsla Reykjanesbrautarinnar verði forgangsverkefni. „Uppbyggingin á atvinnusvæðunum hjá okkur hefur verið gríðarlega mikil og það er nauðsynlegt að koma á endanlegum vegtengingum og framtíðarskipan á Reykjanesbrautina.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert