Bensínverð væri 180 krónur ef bensíngjaldi hefði ekki verið breytt

mbl.is/Ómar

Útsöluverð 95 oktana bensíns verið sem næst 180 krónur lítrinn í febrúar ef reglum um vörugjald á bensín hefði ekki verið breytt árið 1999 og það gert að fastri krónutölu.  Áður var almennt vörugjald á bensíni 97% á tollverð. Algengt þjónustuverð á bensíni í lok febrúar var 144,80 krónur.

Þetta kemur fram í svari Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, við fyrirspurn Péturs Blöndal, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Í svarinu segir, að ráðuneytið hafi ekki reglulegan aðgang að tollverði á innfluttu bensíni og því sé ekki hægt að reikna út vörugjald eftir eldri lagareglum. Hins vegar hafi verið aflað upplýsinga hjá tollstjóranum í Reykjavík um bensín, sem flutt var inn í janúar og febrúar sem ætla megi að hafi verið til sölu í febrúar.

Samkvæmt þessum upplýsingum nam tollverð að meðaltali 42,82 krónum á lítra. Vörugjald af því (97%) hefði numið 41,54 krónum á lítra. Því til viðbótar hefði verið lagt á sérstakt vörugjald sem er reiknað 30,89 krónur. Það gjald gilti áður en hluti almenna vörugjaldsins var fluttur yfir á sérstakt vörugjald í tengslum við upptöku olíugjalds sem kom til framkvæmda 1. júlí 2005.

Loks er álagning olíufélaganna reiknuð út frá samhengi innflutningsverðs, vörugjalda og virðisaukaskatts og útsöluverðs í febrúar og áætluð sú sama á hvern lítra og hún var í þeim mánuði. Að gefnum þessum forsendum hefði útsöluverð 95 oktana bensíns verið sem næst 180 krónur í febrúar.

Svarið í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert