Ekki endilega besta hugmyndin að breyta Landspítala í hlutafélag

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag að engin ný stefna hefði verið mótuð um rekstarform Landspítala. Hann sagði, að þótt nefnd hefði verið hugmynd um að breyta spítalanum í opinbert hlutafélag væri ekki víst að það væri besta hugmyndin.  

Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, vildi fá að vita hvort til greina kæmi að gera Landspítalann að opinberu hlutafélagi, eins og þeir Björn Zoëga, annar starfandi forstjóra spítalans, og  Vilhjálmur Egilsson, formaður nefndar um Landspítalann, sögðu í fréttum Útvarpsins í gærkvöldi að gæti komið til greina.

Geir sagðist ekkert hafa á móti því að menn veltu fyrir sér hugmyndum af þessu tagi en engin ný stefna um rekstarform hefði verið mótuð og hún væri endanlega tekin á Alþingi.

Geir sagði, að menn hlytu að velta því fyrir sér hvort það væri heppilegt að breyta ríkisstofnun í opinbert fyrirtæki þar sem nánast allar tekjur kæmu úr ríkissjóði. Og ekki væri þar með sagt, að þótt þessi hugmynd hefði verið nefnd væri hún besta hugmyndin.  

Ögmundur sagði að Vilhjálmur Egilsson hefði áður verið framkvæmdastjóri Verslunarráðsins og væri nú framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og bæði þessi samtök hefðu einkavæðingu velferðarþjónustunnar á stefnuskrá sinni.

Geir sagði, að Ögmundur hefði áður lýst Vilhjálmi þannig, að hann hlypi um ganga Landspítalans með niðurskurðarsveðjuna á lofti. Svo virtist sem Ögmundur vildi svipta Vilhjálm Egilsson málfrelsinu og banna honum að tjá sig um hvað væri verið að skoða í nefndarstarfinu. Við göngum fordómalaust til þessara verka, ólíkt Ögmundi Jónassyni, sagði Geir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert