Eldurinn breiddist hratt út

Talsvert hvassviðri gerði slökkviliðsmönnum höfuðborgarsvæðisins erfitt fyrir þegar þeir börðust við mikinn sinueld við svonefnda Flóttamannaleið vestan við Urriðavatn í Hafnarfirði í dag. Breiddist eldurinn hratt út á um 2000 fermetra svæði, en aðallega logaði í lúpínu. Skemmdir urðu á girðingum og gróðri, og sinueldurinn var kominn nokkuð nálægt íbúðarhúsum í Setbergslandinu.

Tilkynning um sinueldinn barst slökkviliðinu um korter fyrir eitt og var öflugt lið slökkviliðsmanna sent á vettvang. Rúma klukkstund tók að ráða niðurlögum eldsins og aðstoðuðu vegfarendur við slökkvistarfið. Ljóst þykir að um íkveikju hafi verið að ræða og virðist sem brennuvargarnir hafi verið akandi, þar sem eldurinn breiddist út frá veginum.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sinnti fimm útköllum vegna sinubruna á svipuðum slóðum í gærkvöldi, en gróður þar er mjög þurr. Talsvert hefur verið um sinubruna í Reykjavík og nágrenni síðustu daga eins og jafnan er á þessum tíma árs.

Slökkviliðsmenn vilja brýna fyrir foreldrum að ræða við börn sín um hættuna sem getur skapast af sinueldi og einnig benda þeir á að þeim geti reynst erfitt að fara í önnur verkefni meðan þeir berjast við sinubruna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka