Raunávöxyun Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga var neikvæð á síðasta ári. Hjá LSR, sem er stærsti lífeyrissjóður landsins miðað við eignir, nam nafnávöxtun 5,1% og hjá LH 4,4% en raunávöxtun LSR var því -0,8% og LH -1,5%. Þetta kemur fram í yfirlitsblaði frá LSR sem finna má á vef sjóðsins en raunávöxtun fæst með því að draga verðbólgu frá nafnávöxtun og verðbólga síðasta árs var 5,9%. Á síðasta ári var raunávöxtun 10,9% hjá LSR en 11,1% hjá LH en þegar litið er yfir lengra tímabil má sjá að meðaltal raunávöxtunar undanfarin fimm ár er 8,7 hjá LSR og 8,8% hjá LH. Þegar litið er til enn lengri tíma, þ.e. 10 ára, er meðaltal raunávöxtunar hjá LSR 5,7% en hjá LH 5,6%.
Hrein eign LSR í árslok til greiðslulífeyris nam tæpum 317 milljörðum króna og jókst hún um 34,6 milljarða frá árinu áður. Iðgjöld ársins námu 15,8 milljörðum króna, uppgreiðslur og innborganir vegna skuldbindinga 14,2 milljörðum og fjárfestingartekjur 15,3 milljörðum. Lífeyrisgreiðslur ársins námu 16 milljörðum króna. Hrein eign LH jókst um 985 milljónir króna á síðasta ári og var hún ríflega 23,1 milljarður í árslok. Iðgjöld sjóðsins námu 280 milljónum króna, uppgreiðslur 357 milljörðum og fjárfestingartekjur ríflega milljarði króna en lífeyrisgreiðslur ríflega 1,1 milljarði.
Samanlagðar eignir sjóðanna skiptist þannig að fjárfestingar nema 327,6 milljörðum króna, kröfur 1,5 milljörðum og undir aðrar eignir falla tæpir 12 milljarðar króna. Tæplega 70% verðbréfaeignar sjóðanna eru í íslenskum krónum en ríflega 30% í erlendum gjaldmiðlum.