Hörð andstaða er innan Sambands íslenskra sveitarfélaga við svonefnda landsskipulagsáætlun sem boðuð er í nýju frumvarpi umhverfisráðherra til skipulagslaga. Formaður sambandsins segist telja að óbreytt frumvarp stríði gegn sjálfstjórnarrétti sveitarfélaganna.
Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga ályktaði í upphafi mánaðar gegn frumvarpinu og í nýlegri umsögn leggst sambandið alfarið gegn því að frumvarpið verði samþykkt, nema að undangegnum breytingum. Halldór Halldórsson, formaður sambandsins, bendir m.a. á að í skipulags- og byggingarlögum komi fram að öll sveitarfélög skuli hafa lokið vinnu við aðalskipulag fyrir árslok 2008. Mörg sveitarfélög eru að vinna þá vinnu um þessar mundir. „Það er verið að leggja í þetta ofboðslega vinnu og örugglega tugi milljóna króna. Svo kemur þessi áætlun og segir kannski eitthvað allt annað. Okkur þykir þetta svolítið harkalegt,“ segir Halldór og tekur fram að niðurstaðan sé þverpólitísk.