Á morgun, miðvikudaginn 23. apríl, verður sveitarstjórn Flóahrepps afhentur listi með nöfnum 216 íbúa í hreppnum sem skora á sveitarstjórn að endurskoða ákvörðun sína um að setja Urriðafossvirkjun inn á aðalskipulag hreppsins, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.
Fram kemur að í Flóahreppi búa 424 íbúar sem eru 18 ára og eldri. Meirihluti þeirra hefur því lýst andstöðu sinni við áform sveitarstjórnar. Í texta undirskriftasöfnunarinnar segir orðrétt: “Við undirrituð íbúar í Flóahreppi skorum á sveitarstjórn Flóahrepps að endurskoða ákvörðun sína frá 35.fundi sveitarstjórnar 14. nóvember .2007 um að setja Urriðafossvirkjun inn á aðalskipulag sveitarfélagsins. Að okkar mati er sveitarfélagið betur sett án virkjunarinnar.“
Undirskriftarlistinn verður afhentur á skrifstofu hreppsins að Þingborg á morgun, miðvikudaginn 23. apríl kl. 11.00 og mun Margrét Sigurðardóttir, sveitarstjóri veita honum móttöku.