Flutningabílstjórar fóru með friði frá Álftanesi eftir viðræður við lögreglu. Um tíma var mikill hiti í þeim vegna aðgerða lögreglu og voru tveir tugir flutningabíla kyrrstæðir á Álftanesvegi um hádegisbil.
Flutningabílstjórar ákváðu í dag að aka framhjá afleggjaranum að Bessastöðum þar sem Mahmud Abbas, forseti Palestínumanna, snæddi hádegisverð. Sérsveitarmenn lokuðu afleggjaranum til að tryggja að bílstjórarnir færu ekki þangað. Þá voru lögreglumenn með myndavélar og mynduðu flutningabílana en bílstjórarnir höfðu lofað því að fara eftir umferðarreglum við aksturinn. Bílstjórarnir voru afar óánægðir með aðgerðir lögreglu og hótuðu m.a. að skilja bíla sína eftir á veginum.
Eftir stuttar viðræður sagðist Sturla Jónsson, talsmaður bílstjóra, hafa handsalað samkomulag við lögregluna um að engir eftirmálar yrðu af aðgerðum bílstjóranna og þeir myndu fara á brott með friði.