Launavísitala í mars hækkaði um 1,2% frá fyrri mánuði, samkvæmt útreikningum Hagstofunnar. Síðastliðna tólf mánuði hefur launavísitalan hækkað um 7,8%. Á sama tímabili hefur vísitalan neysluverðs hækkað um 8,7%.
Hagstofan segir, að áhrifa nýgerðra kjarasamninga landssambanda og stærstu aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins gæti í hækkun launavísitölunnar. Í vísitölunni gæti einnig áhrifa endurskoðunarákvæða samninga Kennarasambands Íslands fyrir hönd Félags grunnskólakennara og Skólastjórafélags Íslands og launanefndar, sem meðal annars kvað á um hækkun allra starfsheita um einn launaflokk frá 1. mars 2008.