Missti stjórn á skapi sínu

Vörubílar á Reykjanesbraut í dag.
Vörubílar á Reykjanesbraut í dag. mbl.is/Júlíus

Ökumaður sem varð fyrir töfum vegna aðgerða vörubílstjóra á Reykjanesbraut laust eftir hádegi í dag missti stjórn á skapi sínu og ók með offorsi og grjótaustri framúr langri bílaröð, og var á endanum handtekinn.

Flutningabílstjórar tepptu allar akreinar til austurs í brekkunni um hádegisbilið, samkvæmt upplýsingum lögreglunnar, og óku á um 50 km hraða.

Við það myndaðist löng röð bíla fyrir aftan flutningabílana. Ökumaður fólksbíls í röðinni virtist ósáttur við tafirnar og spændi eftir vegöxlinni framúr röðinni, svo að grjóti rigndi yfir aðra bíla.

Hinn æsti ökumaður stöðvaði bíl sinn fyrir framan flutningabílana, og svo fór að hann var handtekinn og fluttur á lögreglustöð, þar sem verið er að ræða við hann.

Að sögn lögreglu er hann eitthvað farinn að róast.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert