Mjög bágborin aðstaða barna

mbl.is/Frikki

Húsnæði frístundaheimila grunnskóla og félagsmiðstöðva í Reykjavík er stórlega ábótavant og á stöku stað beinlínis hættulegt, samkvæmt úttekt sem unnin hefur verið af starfsmönnum Íþrótta- og tómstundasviðs og var nýlega lögð fyrir borgarráð.

Í fyrsta lagi er húsnæði sem notað er undir frístundaheimili og félagsmiðstöðvar orðið alltof lítið samkvæmt skýrslunni, enda hefur nemendum sem nýta sér þjónustuna fjölgað talsvert. Einnig var mikið af því húsnæði sem notað er undir tómstundastarf ekki byggt sem slíkt og hentar illa.

Þá hefur húsnæði ekki verið haldið nægilega vel við í eldri hlutum borgarinnar. Þannig segir t.d. um frístundaheimili Vesturbæjarskóla: „Eins og staðan er núna er brunavörnum og hollustuháttum ábótavant.“ Eldvarnaeftirlitið hefur gert athugasemdir við brunavarnir í húsinu.

Hreinlæti og viðhald vantar

Heilbrigðiseftirlitið hefur nú þegar lokað hluta af húsnæði frístundaheimilis við Grandaskóla og hreinlæti og viðhaldi er sagt ábótavant í skátaheimili Ægisbúa sem er nýtt fyrir 3. og 4. bekkinga í frístundaheimili Melaskóla. „Mikil óánægja foreldra með aðstöðuna,“ segir í skýrslunni. Í Neðstalandi í Fossvogsskóla þarf að síkka glugga til að hleypa birtu inn. Í Háteigsskóla og Hlíðaskóla er aðstaða frístundaheimilanna sögð „mjög bágborin“ svo fleiri dæmi séu nefnd.

Heildaryfirsýn vantaði

„Kveikjan að því að við ákváðum að vinna þessa skýrslu var að okkur fannst við ekki hafa heildaryfirsýn yfir málaflokkinn,“ segir Soffía Pálsdóttir, skrifstofustjóri tómstundamála hjá ÍTR. Hún segir markmiðið að móta skipulag til þriggja ára um hvernig bregðast megi við húsnæðisvandanum.

Kjartan Magnússon, formaður ÍTR, segir vandamálið hafa verið til staðar lengi. „Fyrir nokkrum árum var farið út í þessi frístundaheimili og boðið upp á þjónustuna í öllum hverfum borgarinnar án þess að viðeigandi húsnæði væri til staðar.“

Í hnotskurn
Frístundaheimilin bjóða upp á tómstundastarf þegar hefðbundnum skóladegi 6-9 ára barna lýkur. Sótt var um vistun á frístundaheimili fyrir 30% nemenda í 1. til 4. bekk í Reykjavík árið 2004, en 50% nemenda árið 2007.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert