Á fundi Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, með David Cameron, leiðtoga breska Íhaldsflokksins, og William Hague, talsmanns flokksins í utanríkismálum. sem fram fór í dag var m.a. rætt um hvalveiðar. Í samtali við mbl.is sagðist Geir hafa farið yfir sjónarmið Íslendinga í þeim málum og hafi niðurstaðan verið sú að vera sammála um að vera ósammála.
Geir sagði fundinn hafa verið afar ánægjulegan og mörg mál til umræðu. „Við hófum fundinn á umræðu um alþjóðleg efnahagsmál og ástandið í Bretlandi og Íslandi. Þeir voru nokkuð fróðir um stöðuna á Íslandi en ég fór einnig yfir hvernig alþjóðlegar hræringar hafa haft áhrif. Mér finnst það skipta máli að þessir menn átti sig á því að í grundvallaratriðum eru okkar málefni í góðu lagi.“
Einnig voru til umræðu varnarmál, orku- og umhverfismál. Geri sagðist svo hafa lokið fundinum með því að færa Cameron og Hague eintak af einni bóka Arnalds Indriðasonar. „Ég er að vonast til að þeim gefist tími til að lesa Arnald, því ég hef góða reynslu af því að gefa mönnum bók eftir hann,“ sagði Geir.