Segir samstarfsslit koma á óvart

Soffía Vagnsdóttir.
Soffía Vagnsdóttir.

Soffía Vagnsdóttir, oddviti K-lista í bæjarstjórn Bolungarvíkur, segir engan aðdraganda hafa verið að slitum meirihlutasamstarfs í bænum og kannast ekkert við þann stigvaxandi ágreining og trúnaðarbrest sem rætt er um í tilkynningu A-lista.

„Þetta kom mér algjörlega í opna skjöldu. Ég kom af fjöllum. Þetta kom fyrst upp í gær, það var enginn aðdragandi. Sorgin felst kannski í því að hún vísar í vaxandi ágreining sem ég kannast bara ekkert við“, segir Soffía og vísar þar til ummæla Önnu Guðrúnar Edvardsdóttur, fulltrúa A-lista, um að trúnaðarbrestur og ágreiningur í samstarfinu hafi farið stigvaxandi.

Soffía fullyrðir, að ástæða slitanna sé samningur Kjarnabúðar ehf. við Ósafl um fæði og gistingu vinnumanna við Bolungarvíkurgöng. „Hún lýsti því yfir í gær og staðfesti að það væri vegna þessa samnings sem hún taldi að gæti skapað hagsmunaárekstra. Ég spurði hvort þessi samningur hefði nokkuð komið inn á borð bæjarstjórnar, og hún vissi náttúrlega að svo var ekki.“

Aðspurð segist Soffía hafa rætt við Elías Jónatansson, oddvita D-lista. „Við töluðum saman í gær og ég upplýsti hann um stöðuna og að það þyrfti að halda áfram að stýra rekstri bæjarins. Hann var æðrulaus og ljúfur að ræða við eins og alltaf og ætlar að ígrunda þessi mál. Nú er bara að sjá hvað nýr dagur ber í skauti sér og hvort ég verði áfram í meirihluta eða ekki“, segir Soffía.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert