Stjórnendur Landspítalans hafa boðið skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðingunum, sem hafa sagt upp störfum frá og með 1. maí vegna breytts vaktafyrirkomulags og tekjumissis, um 9 þúsund krónur á mánuði í bílastyrk, að sögn Erlu Bjarkar Birgisdóttur trúnaðarmanns.
„Við áttum von á einhverjum sporslum í einstaklingsviðtölunum sem hjúkrunarfræðingar voru boðaðir í en að þær skyldu verða svona litlar kom okkur á óvart,“ segir Erla.
Hún leggur áherslu á að hjúkrunarfræðingarnir hafi ekki sagt upp störfum vegna kröfu um hærri laun. Hjúkrunarfræðingar vilji hins vegar halda því sem þeir hafa. „Tekjutapið vegna vaktafyrirkomulagsins, sem var sett á fyrir 3 til 4 árum og þótti þá fínt, nemur tugum þúsunda króna á mánuði hjá hverjum hjúkrunarfræðingi. Vetrarfríið verður þar að auki skert, vinnuumhverfið verður töluvert verra og gæði hjúkrunar minnka.“
Af 104 skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðingum hafa 96 sagt upp störfum. Nokkrir þeirra hafa þegar ráðið sig annars staðar, að sögn Erlu. Hún segist telja að enginn hinna hjúkrunarfræðinganna muni snúa aftur til vinnu dragi stjórnendur ekki ákvörðun sína um breytt vinnufyrirkomulag til baka. „Geri þeir það ekki göngum við út á miðnætti 30. apríl.“