Einar Árnason flutningabílstjóri telur aðgerðir lögreglu vegna mótmæla atvinnubílstjóra við Suðurlandsveg í dag hafa verið alltof harkalegar. Hann segir að litlu hafi mátt muna að kona með barn í fanginu hafi fengið piparúða yfir sig.
Einar rekur atburðarásina frá því í morgun eins og hún kom honum fyrir sjónir í viðtali við MBL sjónvarp.
Einar segir frá því hvernig dagurinn byrjaði þegar hann tók sér kaffihlé ásamt Sturlu Jónssyni, talsmanni atvinnubílstjóra, og fleirum. Þeir hugðust í fyrstu loka Reykjanesbrautinni en hættu við og héldu upp að Rauðavatni. Við Suðurlandsveg hafi bílstjórar síðan safnast saman, fleiri hafi komið þar að og þá hafi ekki verið aftur snúið.
Hann vísar því alfarið á bug að bílstjórar hafi ekki vilja fara að tilmælum lögreglu og telur að aðgerðir hennar hafi verið alltof harkalegar. Einar segir almenning búinn að fá nóg.