Dæmdur í sekt fyrir að birta áfengisauglýsingar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt framkvæmdastjóra Ölgerðar Egils Skallagrímssonar í 300 þúsund króna sekt fyrir að birta auglýsingar um áfengan bjór í tímaritinu Birtu á árinu 2006.

Framkvæmdastjórinn bar fyrir sig, að með auglýsingabanni áfengislaga sé brotið gegn meðalhófsreglunni í íslenskum lögum og reglum EES.  Benti hann á að bjór sé veikt áfengi og rannsóknir hafi sýnt að aukin neysla hans dragi úr neyslu sterkara áfengis og þar með vanköntum þeim sem fylgi ofneyslu áfengis. 

Dómurinn vísaði hins vegar til þess, að dæmt hafi verið að auglýsingabannið standist ákvæði stjórnarskrárinnar og það sé ekki hlutverk dómstóla að ákveða, að æskilegt sé að neytendur velji frekar eina tegund áfengis en aðra og gera þannig upp á milli áfengistegunda, því síður að slá því föstu að neysla áfengs bjórs sé fólki hollari en til dæmis drykkja brennivíns.

Þá vísaði framkvæmdastjórinn til þess að  lögreglan hafi vísað frá öðrum kærum vegna áfengisauglýsinga en dómurinn sagði, að það sé ekki sýknuástæða að  annar maður hafi einnig brotið lögin en sloppið við ákæru. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert