Dæmdur í sekt fyrir að birta áfengisauglýsingar

Héraðsdóm­ur Reykja­vík­ur hef­ur dæmt fram­kvæmda­stjóra Ölgerðar Eg­ils Skalla­gríms­son­ar í 300 þúsund króna sekt fyr­ir að birta aug­lýs­ing­ar um áfeng­an bjór í tíma­rit­inu Birtu á ár­inu 2006.

Fram­kvæmda­stjór­inn bar fyr­ir sig, að með aug­lýs­inga­banni áfeng­islaga sé brotið gegn meðal­hófs­regl­unni í ís­lensk­um lög­um og regl­um EES.  Benti hann á að bjór sé veikt áfengi og rann­sókn­ir hafi sýnt að auk­in neysla hans dragi úr neyslu sterk­ara áfeng­is og þar með van­könt­um þeim sem fylgi of­neyslu áfeng­is. 

Dóm­ur­inn vísaði hins veg­ar til þess, að dæmt hafi verið að aug­lýs­inga­bannið stand­ist ákvæði stjórn­ar­skrár­inn­ar og það sé ekki hlut­verk dóm­stóla að ákveða, að æski­legt sé að neyt­end­ur velji frek­ar eina teg­und áfeng­is en aðra og gera þannig upp á milli áfengis­teg­unda, því síður að slá því föstu að neysla áfengs bjórs sé fólki holl­ari en til dæm­is drykkja brenni­víns.

Þá vísaði fram­kvæmda­stjór­inn til þess að  lög­regl­an hafi vísað frá öðrum kær­um vegna áfengisaug­lýs­inga en dóm­ur­inn sagði, að það sé ekki sýknu­ástæða að  ann­ar maður hafi einnig brotið lög­in en sloppið við ákæru. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert