Fær barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar

Bryndís Guðmundsdóttir.
Bryndís Guðmundsdóttir.

Bryndís Guðmundsdóttir hlaut í dag barnabókaverðlaun menntaráðs Reykjavíkurborgar fyrir bókina Einstök mammameð myndskreytingum Margrétar E. Laxness.

Verðlaun fyrir bestu þýðingu barnabókar hlaut Magnús Ásmundsson fyrir Dansar Elías?eftir sænsku skáldkonuna Katarinu Kieri.

Ólafur F. Magnússon borgarstjóri og Júlíus Vífill Ingvarsson formaður menntaráðs afhentu barnabókaverðlaunin í Höfða í dag. Þetta er í 36. sinn að yfirvöld menntamála í Reykjavík verðlauna rithöfunda og þýðendur barnabóka fyrir afburða góðar bækur í þeim tilgangi að vekja athygli á mikilvægi góðra bókmennta í uppeldisstarfi.

Úthlutunarnefnd var að þessu sinni skipuð Felix Bergssyni, formanni, Guðrúnu Pálínu Ólafsdóttur og Lilju Margréti Möller.

Einstök mamma fjallar um stúlkuna Ásdísi sem elst upp með heyrnarlausri móður. Höfundur lýsir á heiðarlegan hátt tilfinningum stúlkunnar, viðbrögðum samfélagsins við heyrnarleysi og skondnu og skemmtilegu fjölskyldulífi.

Í niðurstöðum dómnefndar segir að sagan sé mjög vel skrifuð og sögð af einstöku næmi og skilningi á viðfangsefninu. Þá séu myndskreytingar Margrétar E. Laxness mjög góðar og vinni ákaflega vel með sögunni. Salka gaf bókina út.

Í Dansar Elías? segir af 16 ára strák sem hefur orðið fyrir þeirri þungbæru reynslu að missa móður sína. Í niðurstöðum dómnefndar segir að þýðing Magnúsar Ásmundssonar sé lipur og falleg. Hún styðji vel við höfundarverkið og komi því glæsilega á framfæri við íslenska lesendur. Útgefandi er Fjölvi.

Magnús Ásmundsson.
Magnús Ásmundsson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert