Karlmaður, sem segist hafa kastað steini í lögreglumann, segist hafa gert það vegna þess að áður hafi lögregla beitt hann og aðra á svæðinu miklu harðræði og sýnt valdníðslu. Myndatökumaður mbl.is náði myndum af því þegar steininum var kastað og hann lenti í andliti lögreglumanns.
„Ég fékk mitt og þeir fengu sitt," sagði hann. Maðurinn, sem ekki vildi láta nafns síns getið, var ekki handtekinn, eins og áður höfðu borist upplýsingar um og segist ekki hafa í hyggju að gefa sig fram.
Maðurinn sagðist hafa ásamt fleirum hafa reynt að koma öðrum manni til aðstoðar, sem lögreglan sprautaði úða á. Lögreglumennirnir hefðu hins vegar ráðist að þeim með offorsi. Maðurinn sagði, að þegar hann hafi verið kominn yfir veginn hafi hann verið afar reiður og ákveðið að nýta handboltaþjálfun sína, tekið stein og kastað í lögreglumennina handan vegarins.
Maðurinn sagðist telja að aðgerðir lögreglu hefðu alls ekki verið réttlætanlegar og að mótmælin hefðu ekki verið ólögleg þótt umferð um veginn hafi verið stöðvuð. Fólk, sem þarna var, hafi ekkert haft sig í frammi þegar lögreglan greip til varnarúðans.