Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar hafa lagt fram tillögu í umhverfis- og samgönguráði um að Hallargarðurinn verði færður í upprunalegt horf.
Í tillögunni, sem lögð var fram í gær, er gert ráð fyrir að garðurinn verði endurgerður samkvæmt teikningum Jóns H. Björnssonar landslagsarkitekts og að garðyrkjustjóra verði falið að hefja nú þegar undirbúning og áætlanagerð.
Fram kemur í fréttatilkynningu frá VG að verði þetta samþykkt verði m.a. komið aftur upp tjörn í garðinum og hellulögn endurnýjuð með marghyrndum hellum. Þá þurfi að planta reynivið í stað trjáa sem þar hafi verið felld. Einnig kemur þar fram að verkið megi vinna í áföngum, en að samkvæmt tillögunni skuli því verða lokið haustið 2010.
Umræðum um tillöguna var frestað á fundinum í gær og verður hún væntanlega tekin fyrir á næsta fundi ráðsins.