Hreinn nýr vegamálastjóri

Hreinn Haraldsson.
Hreinn Haraldsson.

Kristján L. Möller, samgönguráðherra, hefur sett Hrein Haraldsson í embætti vegamálastjóra til eins árs, frá 1.maí. Hreinn er jarðfræðingur að mennt og kom til starfa hjá Vegagerðinni árið 1981. Hann hefur undanfarið gegnt þar starfi framkvæmdastjóra þróunarsviðs.

Rökstuðningur Kristjáns fyrir ráðningunni er birtur á heimasíðu samgönguráðuneytisins. Þar segir að gerðar hafi verið kröfur um háskólamenntun í verkfræði eða sambærileg menntun, víðtæka reynslu af stjórnunarstörfum og áætlanagerð, frumkvæði og leiðtogahæfni og reynslu og hæfileika til að miðla upplýsingum ásamt hæfni í samskiptum. 

Tíu sóttu um starfið og segir Kristján, að eftir ítarlega og málefnalega skoðun á umsóknum og atriðum sem fram komu í viðtölum við umsækjendur, sé  það sitt mat að Hreinn Haraldsson sé hæfasti umsækjandinn.

Hreinn hafi í störfum sínum sýnt mikið frumkvæði, leiðtogahæfni,  getu til að miðla upplýsingum og hæfni í mannlegum samskiptum. Hann hafi auk þess sterka framtíðarsýn fyrir Vegagerðina og sé líklegri en aðrir umsækjendur til þess að stuðla að nýbreytni og þróun í starfsemi hennar þannig að hún verði burðarás í rannsókna- og þróunarvinnu í samgöngumálum og mótun samgöngustefnu í samráði við stjórnvöld líkt og gert er ráð fyrir í vegalögum.

Niðurstaða Capacent ráðninga, sem veitti ráðgjöf við skoðun umsókna og framkvæmd viðtala, var einnig sú að Hreinn væri hæfastur umsækjenda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert