Lögmaður sektaður fyrir ummæli í stefnu

Hæstiréttur sýknaði í dag Samskip af kröfu ekkju sjómanns, sem fórst með Dísarfelli í mars 1997 en ekkjan krafðist skaðabóta á þeirri forsendu að orsök slyssins mætti aðallega rekja til vanbúnaðar eða bilunar skipsins. Hæstiréttur dæmdi lögmann konunnar í 100 þúsund króna sekt fyrir ummæli í garð Samskipa, sem fram komu í héraðsdómsstefnu.

Hæstiréttur féllst á þá niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur, að ekki hefði verið sýnt fram á að slysið mætti rekja til vanbúnaðar eða bilunar skipsins. Þá hefði ekki verið sýnt fram á, að skipstjóri Dísarfells hefði sýnt af sér gáleysi með því að kalla ekki á aðstoð fyrr en raun bar vitni.

Tólf skipverjar voru um borð í Dísarfelli þegar það sökk um miðja vegu milli Hornafjarðar og Færeyja. Allir lentu mennirnir í sjónum en tíu var bjargað um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar. Tveir létust.

Samskip kröfust þess að Steingrímur Þormóðsson, lögmaður ekkjunnar, yrði dæmdur í sekt fyrir ummæli, sem hann viðhafði í stefnu, þar á meðal að skipverjar hafi haft vantrú á skipinu og grunað útgerðina um græsku, að eiginmaður konunnar hafi verið munstraður á manndrápsfleytu sem eigendum útgerðarinnar hafi verið ljóst að gæti sokkið hvenær sem var, og að skipið hafi verið vel tryggt og útgerðin og eigendur þess hafi hagnast á slysinu.

Hæstiréttur taldi ummælin ósæmileg og sérstaklega vítaverð enda væri með þeim gefið í skyn að Samskip hefðu framið refsiverðan verknað. Var lögmaðurinn dæmdur til að greiða 100 þúsund króna sekt í ríkissjóð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert