Lögreglan geymir flutningabílana sem haldlagðir hafa verið á Suðurlandsvegi, en ekki liggur fyrir hvað gert verður við þá. Þegar hafa að minnsta kosti fjórir bílar verið fluttir á svæði lögreglunnar, og fleiri eru á leið þangað.
Hörður Jóhannesson aðstoðarlögreglustjóri segir, að markmið aðgerða lögreglunnar á Suðurlandsvegi í dag sé ekkert annað en það að fjarlægja flutningabílana sem teppi umferð um veginn. Lögreglan hafi heimild til að leggja hald á bílana.
Hörður segir að ekki liggi enn fyrir hvert verði framhald haldlagningarinnar. Þótt heimild sé til þess í lögum að halda hlutum til tryggingar sektum og málskostnaði sé alls ekki þar með sagt að sú verði raunin í þessu tilviki.