Árni Mathiesen fjármálaráðherra býður starfsmönnum ríkisins 18.000 króna hækkun mánaðarlauna frá næstu mánaðamótum. Fram kom í fréttum útvarpsins að gert sé ráð fyrir að nýr kjarasamningur verði endurskoðaður í mars á næsta ári og framlengdur til haustsins 2011 ef samningsaðilar eru sammála um að forsendur hans hafi staðist.
Fram kom í Útvarpinu að samninganefnd ríkisins hafi gert félögum í opinbera geiranum tilboð um nýjan samning og sé verið að kynna hann fyrir félögum opinberra starfsmanna. Samkvæmt tilboðinu eigi mánaðarlaun fyrir dagvinnu að hækka um 18.000 krónur frá 1. maí. Ári síðar eiga mánaðarlaunin að hækka um 13.500 krónur og frá og með 1. janúar 2010 um 6.500 krónur. Hækkunin á samningstímanum nemur því rúmlega 38.000 krónum.
Orlofsuppbót á að vera 24.300 krónur á þessu ári og hækkar síðan í 26.200 krónur í lok samningstímans. Samsvarandi hækkanir á desemberuppbót eru 44.100 krónur í 46.800 krónur. Þá eru endurskoðunarákvæði í samningnum.