Sturla Jónsson, talsmaður atvinnubílstjóra, segist ekki hafa orðið var við gagnrýni á aðgerðir bílstjóra við Bessastaði í gær. Er blaðamaður mbl.is spurði hann í morgun um viðbrögð við aðgerðum sagðist hann hafa verið svo þreyttur eftir daginn í gær að hann hefði einfaldlega slökkt á símanum þegar heim var komið. Hannh hefði því ekki frétt af neinum viðbrögðum eða gagnrýni.
Sturla sagðist þó ekki telja að almenningi þyki of langt gengið. „Við vorum ekkert að tengja okkur við Palestínu þarna í gær," sagði hann. „Við vissum bara að það yrðu fjölmiðlar á svæðinu og vildum minna á okkur. Það er alveg ljóst að ráðamenn ætla ekki að gera neitt en við ætlum heldur ekki að gefast upp."
Þá sagði hann atvinnubílstjóra ætla að hvetja aðra ökumenn til að taka þátt í fyrirhuguðum mótmælaaðgerðum atvinnubílstjóra í dag með því að stíga út úr bílum sínum þar sem atvinnubílstjórar verði með aðgerðir.