Sýslumaður fær ekki upplýsingar um fjármál tveggja manna

Frá Bifröst í Borgarfirði.
Frá Bifröst í Borgarfirði. mbl.is/RAX

Hæstiréttur hefur hafnað kröfu sýslumannsins í Borgarnesi um að hann fái aðgang að upplýsingum um fjármál tveggja fyrrum nemenda í Háskólanum að Bifröst vegna gruns um að þeir tengdust fíkniefnasölu. Húsleit var gerð hjá mönnunum í vetur og fannst lítilræði af fíkniefnum í íbúðum þeirra og ensk pund í íbúð annars.

Húsleit var gerð í íbúðum þriggja nemenda í háskólaþorpinu Bifröst í lok febrúar og lagt hald á lítilræði af kókaíni, amfetamíni og kannabisefnum. Fram kemur í úrskurði Héraðsdóms Vesturlands, sem kærður var til Hæstaréttar, að húsleitin hafi verið liður í umfangsmeiri aðgerðum lögreglu við rannsókn á ætlaðri sölu og dreifingu fíkniefna. Í einni íbúðinni fannst, auk lítilræðis af amfetamíni, 8545 ensk pund í reiðufé.

Sýslumaðurinn í Borgarnesi fór í kjölfarið fram á að fá upplýsinga hjá bönkum, fjármálafyrirtækjum og fjármálastofnunum, og opinberum stofnunum um fjármál mannanna og viðskipti, þar með talið bankareikninga hans og gjaldeyrisviðskipti fyrir að minnsta kosti tvö síðastliðin ár.

Fram kemur m.a. í úrskurðunum að lögregla telji annan manninn vera höfuðpaur í dreifingu fíkniefna  og að pundin, sem fundust hjá honum, vera afrakstur fíkniefnasölu.

Kröfum sýslumanns var hafnað, fyrst af héraðsdómi og síðan hæstarétti, þar sem þær voru ekki taldar beinast að neinum tilteknum manni eða lögaðila.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert