Vill tryggja víðtæka sátt um málefni REI

„Ég tel nægilegt að umrædd tillaga meirihluta stjórnar Orkuveitunnar verði samþykkt á stjórnarfundi enda er um að ræða útfærslu á því sem ákveðið var á eigendafundi fyrir skömmu. Ef fram kemur krafa um að sérstakur eigendafundur verði haldinn til að afgreiða slíka tillögu er sjálfsagt að skoða það til að tryggja sem víðtækasta sátt um málefni REI,“ segir Kjartan Magnússon, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur (OR) og Reykjavik Energy Invest (REI).

Vísar Kjartan þar til nýlegrar tillögu meirihluta stjórnar OR þess efnis að gerð verði úttekt á verkefnum REI og verðmat á verkefnum þess með það fyrir augum að fyrirtækið geti einbeitt sér að ráðgjöf og þróunarverkefnum en hugað að sölu á þeim verkefnum sem ekki falla undir þá starfsemi.

Eins og fram hefur komið telur minnihluti stjórnar að tillöguna þurfi að ræða á eigendafundi OR þar sem hún gangi í berhögg við samþykkt eigendafundar OR frá febrúar sl. þar sem eigendur samþykktu að REI ætti áfram að vera í 100% eigu OR og áfram rekið með það hlutverk að sinna þróunar- og fjárfestingarverkefnum á erlendri grund.

Aðspurður hversu hátt hlutfall verkefna REI sé einvörðungu fjárfestingarverkefni segir Kjartan að verið sé að fara yfir verkefni fyrirtækisins og meta þau. „Öll verkefni REI eru fjárfestingarverkefni í þeim skilningi að komist þau á framkvæmdastig þarf utanaðkomandi fjármagn til þeirra. Þótt REI losi sig við áhættu í einstökum verkefnum er vel mögulegt að fyrirtækið taki þátt í þeim áfram með sölu á ráðgjöf eða verkefnisstjórn. Það sem skiptir mestu máli er að núverandi meirihluti borgarstjórnar hefur ekki í hyggju að taka tugmilljarða króna úr vösum Reykvíkinga og annarra notenda Orkuveitunnar og verja þeim til áhættufjárfestinga á viðsjárverðum mörkuðum,“ segir Kjartan.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert