Gáfu ekki lagalegar skýringar

mbl.is/júlíus

Einar Árnason vörubílstjóri hefur lokið skýrslutöku hjá lögreglu. Að hans sögn vill lögreglan meina að atvinnubílstjórar hafi stöðvað umferð um Suðurlandsveg í gær. „Þeir gáfu okkar engar skýringar á því, hvorki lagalegar né aðrar, af hverju þeir tóku bílana,“ sagði Einar í samtali við blaðamann Fréttavefjar Morgunblaðsins.  

Næsta skref hjá bílstjórunum er að sækja bíla sína sem voru teknir í gær. Einar segist vita um suma bílstjóra sem geta ekki sótt bílana sína þar bifreiðar þeirra skemmdust og heldur Einar að um sé að ræða að minnsta kosti þrjár bifreiðar.

„Við teljum þetta þjófnað. Þessir bílar voru ekki fyrir, þeir voru inni á plani og tepptu ekki götuna,“ sagði Einar.

Aðspurður um hvort frekari mótmæli væru á dagskrá í dag sagði Einar að það færi eftir því hver hugur mann væri. „Ég hef heyrt utan að mér að almenningur ætli að safnast saman á Austurvelli milli klukkan 17 og 19,“ sagði Einar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert