Óeirðir ekki einsdæmi

Lögreglumenn beina piparúðabrúsum að fólki á Suðurlandsvegi í gær.
Lögreglumenn beina piparúðabrúsum að fólki á Suðurlandsvegi í gær. mbl.is/Júlíus

Þrátt fyrir að óeirðir milli borgara og lögreglu líkt og áttu sér stað í gær séu fátíðar hér á landi þá eru þær alls ekki einsdæmi.

Í nóvember 1932 varð hinn svokallaði Gúttóslagur þegar verkalýðshreyfingin í Reykjavík brást hart við því að til stóð að lækka laun fyrir atvinnubótavinnu um þriðjung. Hörð átök brutust út á milli hundraða mótmælenda og lögreglu með þeim afleiðingum að fólk úr báðum liðum lá sárt eftir. Atburðurinn hefur verið kallaður Gúttóslagurinn vegna þess að á þeim tíma voru bæjastjórnarfundir í Reykjavík haldnir í Góðtemplarahúsinu sem var kallað Gúttó.

Samþykkt að ganga í NATO

Óeirðir brutust út á Austurvelli þann 30. mars 1949 þegar Alþingi samþykkti inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið (NATO). Samkvæmt heimildum frá þessum tíma voru á milli átta og tíu þúsund manns samankomnir á Austurvelli þennan dag. Mikil slagsmál brutust út á torginu þegar tilkynnt var um ákvörðunina og flestar rúður í Alþingishúsinu brotnar. Eftir að lögreglan hóf að dreifa táragasi tókst þó að dreifa mannfjöldanum. Tólf manns voru fluttir á sjúkrahús, þar af fimm lögreglumenn.

Átök á Suðurlandsvegi 1952

Í bók Guðna Th. Jóhannessonar, Óvinir ríkisins, kemur fram að stefnt hafi í blóðugan bardaga á Suðurlandsvegi aðfaranótt 16. desember 1952 milli verkfallsvarða og Sunnlendinga sem reyndu að koma ýmsum nauðsynjavörum til Reykjavíkur. Verkfallsverðirnir höfðu gætt þess vandlega að engar nauðsynjavörur bærust inn í höfuðborgina í tvær vikur, en verkfall 30 verkalýðsfélaga stóð þá yfir. Sunnlendingum var um síðir nóg boðið og um hundrað þeirra lögðu því í hann suður á vörubílum, fólksbílum og rútubílum. Um 40 verkfallsverðir mættu hersingunni á Suðurlandsveginum. Þótti einsýnt að til alvarlegra átaka myndi koma, en á síðustu stundu tókst lögreglu að stilla til friðar.

Blóðugur götubardagi

Í bók Guðna segir einnig frá því að þann 21. desember 1968 hafi átt að funda um ástandið í Víetnam í Tjarnarbúð. Síðan átti að vera blysför að sendiráði Bandaríkjanna. Um 200 manns mættu á fundinn og héldu margir þeirra síðan á Austurvöll þar sem urðu slagsmál milli lögreglu og mótmælenda. Samkoman leystist upp þegar lögreglan kom í veg fyrir að hópur mótmælenda kæmist að sendiráði Bandaríkjanna. Í kjölfarið var boðað til annars fundar á Þorláksmessu. Yfir 500 manns mættu og hluti hópsins fór síðan í þá mótmælagöngu sem ætlað var að fara tveimur dögum áður. Í bók Guðna kemur fram að í Bankastræti hafi beðið þreföld röð 50 lögregluþjóna. Þar blossaði síðan upp götubardagi, en vert er að geta þess að fjöldi almennra borgara var við jólainnkaup í miðborginni á þessum tíma og því gat verið erfitt að skilja á milli mótmælenda og almennra borgara. Alls slösuðust 20 mótmælendur og þrír lögreglumenn áður en átökunum lauk.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert