Vart hefur orðið við rottugang í nágrenni Réttarholtsvegar síðustu daga. Berglind Jóhannesdóttir dagmóðir hefur áhyggjur af þessum nýja gesti í hverfinu: „Drengirnir mínir urðu varir við rottu á þriðjudagsmorgun þegar þeir voru á leið í skólann og svo sá nágranni minn rottu í garðinum bak við húsið sitt,“ segir Berglind en rotturnar segir hún á stærð við stóra naggrísi.
Guðmundur Björnsson er rekstrarstjóri meindýravarna Reykjavíkurborgar og segir hann um 300 útköll vera á hverju ári vegna rottugangs í Reykjavík: „Um leið og okkur berst kvörtun er tekið á málinu og undantekning er ef við bregðumst ekki við samdægurs,“ segir Guðmundur. „Aðstæður eru metnar á hverjum stað fyrir sig og gripið til viðeigandi úrræða, hvort sem notað er eitur, settar upp gildrur eða öðrum ráðum beitt.“