Lára Ómarsdóttir, fréttamaður á Stöð 2 hefur sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:
„Vegna ummæla minna sem fyrir mistök heyrðust í beinni útsendingu á vísi.is í gær vil ég taka eftirfarandi fram.
Á orðunum mátti skilja að ég væri reiðubúin til að sviðsetja atburði fyrir myndavélar Stöðvar 2. Það dytti mér aldrei í hug að gera enda brot á grundvallarreglum blaðamennsku. Þetta var sagt í fullkomnum hálfkæringi og einungis ætlað eyrum samstarfsmanns. Það dytti engum minna samstarfsmanna í hug að taka orð af þessu tagi bókstaflega en alþekkt er að á milli okkar fjúki ýmislegt gráglettið. Stundum er það til spennulosunar á álagsstund.
Mér þykir afar miður að þessi orð skuli hafa farið fyrir eyru almennings og að það hvarfli að einhverjum að draga trúverðugleika minn, eða minna samstarfsmanna, í efa á forsendum þessara mistaka. Það ætti að vera næsta augljóst að þessi ummæli voru ekki sett fram í alvöru og ég ítreka að sviðsetning atburða í fréttatíma er svo alvarlegt brot á meginreglum míns starfs að ég léti mér slíkt aldrei til hugar koma."