Stjórn Akureyrarstofu hélt sína árlegu vorkomu í Ketilhúsinu á Akureyri í gær, sumardaginn fyrsta. Þar var tilkynnt hverjir hljóta starfslaun listamanna næsta árið og jafnframt voru veittar viðurkenningar Húsverndarsjóðs fyrir endurbætur á eldri byggingum. Starfslaun listamanna frá júní 2008 til maí 2009 hlutu Anna Gunnarsdóttir textíllistakona og fjöllistakonan Anna Richards.
Alls bárust vel á annan tug umsókna um starfslaun listamanna. Í ræðu sinni á vorkomunni sagði Elín Margrét Hallgrímsdóttir formaður stjórnar Akureyrarstofu, að þessi fjöldi umsókna og fjölbreytileiki listamannanna sjálfra og listgreina þeirra, væri til marks um gróskuna sem einkennir listalífið á Akureyri og sem felur jafnframt í sér heilmikið aðdráttarafl fyrir bæinn. Á síðasta ári fengu Björg Þórhallsdóttir söngkona og Kristján Ingimarsson leikari starfslaun til sex mánaða hvort, samkvæmt tilkynningu.
Viðurkenningar Húsverndarsjóðs voru annars vegar veittar fyrir endurbyggingu á Hafnarstræti 53, Gamla barnaskólanum, sem hýsir nú fjárfestingarbankann Saga Capital, og hins vegar fyrir miklar endurbætur á Kaupvangsstræti 6, Gömlu bögglageymslunni þar sem veitingahúsið Friðrik V er nú til húsa. Eiður Gunnlaugsson, núverandi eigandi Gamla barnaskólans, og Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson forstjóri Saga Capital, tóku við viðurkenningum fyrir Hafnarstræti 53, en fyrir Kaupvangsstræti 6 tóku Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri KEA og Friðrik Valur Karlsson veitingamaður við viðurkenningum. Gamla bögglageymslan er í eigu Klappa, fasteignafélags KEA.