Árlegt netarall Hafrannsóknastofnunarinnar sem hófst 2. apríl fer senn að ljúka. Þrátt fyrir að Þrátt fyrir að aflinn í netaralli sé minni í ár en í fyrra þá hafa bátarnir í rallinu verið að fá ágætisafla. Það þarf að fara nokkur ár aftur í tímann til að finna sambærilegan afla og síðustu tvö ár.
Aðeins er eftir að ljúka sýnatöku á svæðinu fyrir norðaustan land en gert er ráð fyrir að það klárist um helgina. Sjö bátar hafa tekið þátt í netarallinu. Arnar SH var í Breiðafirði, Saxhamar SH í Faxaflóa, Friðrik Sigurðsson ÁR á svæðinu frá Reykjanesi að Þrídröngum, Glófaxi VE frá Þrídröngum að Skeiðarárdjúpi og Hvanney SF frá Meðallandsbugt að Hvítingum. Sædís ÍS var í Ísafjarðardjúpi og Þorleifur EA á svæðinu frá Húnaflóa að Þistilfirði, samkvæmt upplýsingum frá Hafró.
Um 45-50 trossur að meðaltali eru lagðar á svæðunum, misjafnt eftir stærð þeirra og er þeim dreift innan svæða á helstu hrygningarslóðum þorsks.
„Þrátt fyrir að aflinn í netaralli sé minni í ár en í fyrra þá hafa bátarnir í rallinu verið að fá ágætisafla. Það þarf að fara nokkur ár aftur í tímann til að finna sambærilegan afla og síðustu tvö ár en þorskaflinn er orðinn um 410 tonn en var rétt rúm 470 tonn í fyrra.
Aflinn var betri hjá Friðriki Sigurðssyni og Hvanney í ár. Það lítur einnig út fyrir að aflinn fyrir norðan verði betri, en Þorleifur fékk góðan afla við Grímsey í upphafi rallsins og landaði 23 tonnum af þorski miðað við slægt. Á öðrum svæðum hefur aflinn verið minni í ár en í fyrra, t.d. var afli Glófaxa VE í köntunum fyrir austan Eyjar 64 tonn af þorski en aflinn á sama svæði í fyrra var 80 tonn af þorski," að því er fram kemur á vef Hafrannsóknarstofnunar.