Íhuga að kæra lögregluna

Sturla Jónsson, talsmaður atvinnubílstjóra, segir að nokkrir bílstjórar séu að íhuga að leggja fram kærur á hendur lögreglunni fyrir að hafa tekið of harkalega á þeim í kjölfar mótmælanna á Suðurlandsvegi á miðvikudag.

Sturla bendir hins vegar á að bílstjórarnir séu ekki í neinu stríði við lögregluna heldur beinist mótmæli þeirra fyrst og fremst að aðgerðaleysi stjórnvalda.

Aðspurður um atvikið í gær þegar sló í brýnu milli atvinnubílstjóra og lögreglunnar á Kirkjusandi segir Sturla að það sé miður að svo hafi farið.

Að sögn lögreglu má búast við því að gefin verði út ákæra á hendur manninum. Brotið varðar 106. gr almennra hegningarlaga og getur ofbeldi gagnvart lögreglumanni varðað allt að átta ára fangelsi.

Sturla hefur enn ekki sótt flutningabifreið sína sem lögreglan lagði hald á á miðvikudag. Hann segir að hún hafi skemmst í meðförum lögreglunnar.




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert