Fyrsta kría ársins sást við Ósland á Höfn í Hornafirði í gær, sumardaginn fyrsta. Björn Gísli Arnarson fuglaáhugamaður segir að krían hafi verið ein á ferð en á næstu dögum má eiga von á stórum hópum af kríum.
Það er ekki óalgengt að fyrstu kríurnar sjáist í nágrenni Hafnar. Björn segir kríuna á eðlilegum tíma í ár en hún komi núna fyrr en á árum áður þegar oft varð vart við fyrstu kríurnar í 1. maí-skrúðgöngum bæjarbúa á Höfn.
Gott veður tók á móti kríunni, um 11 gráðu hiti og hæglætisveður, og Björn segir það óneitanlega til marks um fyrir bæjarmenn að vor sé í lofti þegar fer að heyrast í kríunni.