Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur segir að mótmæli atvinnubílstjóra að undanförnu séu bundin við aðstæður bílstjóranna sem flestir séu einyrkjar. Þau endurspegli ekki stöðuna í þjóðfélaginu, séu ekki vísbending um að allt sé að fara úr böndunum.
Mótmælendur segja að aðgerðir þeirra séu til þess að fá fram breytingar á reglum um hvíldartíma, að fallið verði frá fyrirhuguðu umhverfisgjaldi og gjöld á vörubifreiðar verði lækkuð sem og virðisaukaskattur á eldsneyti. Helgi Gunnlaugsson bendir á að allt séu þetta mál almenns eðlis sem snerti alla en séu ekki einskorðuð við vörubílstjóra. Því telji hann að meira liggi að baki og þá almennt rekstrarumhverfi þessara farartækja. Margir vörubílaeigendur hafi eflaust tekið erlend lán til að kaupa bílana og þau hafi hækkað mikið að undanförnu. Verkefnastaðan hafi líka versnað skyndilega. Ástandið komi verr niður á einyrkjum en stærri fyrirtækjum. Nái menn ekki endum saman við þessar aðstæður sé ekki óeðlilegt að kveikiþráðurinn sé stuttur.