Reglum um niðurgreiðslur félagslegra leiguíbúða breytt

Velferðarráð hefur ákveðið að breyta almennum niðurgreiðslum félagslegra leiguíbúða í Reykjavík í persónulegan stuðning við leigjendur í formi sérstakra húsaleigubóta. Með þessu mun greiðslubyrði leigjenda taka mið af persónubundnum aðstæðum hverju sinni, að sögn borgaryfirvalda. Breytingin mun koma til framkvæmda um mánaðamótin maí–júní.

Að sögn Jórunnar Frímannsdóttur, formanns Velferðarráðs, er fyrirkomulagið núna með þeim hætti að Velferðarsvið greiðir með hverri íbúð þriðjung af leiguverði hennar, óháð því hver býr í henni. Breytingin felur í sér að þessum beinu niðurgreiðslum er hætt en sambærilegar upphæðir verða notaðar til að styðja einstaklingana sjálfa. „Allt sem hefur farið í þessa földu niðurgreiðslu verður flutt yfir í svokallaðar sérstakar húsaleigubætur og dreift á einstaklinga eftir því hvernig þeirra hagur er. Við erum sannfærð um að með þessu verður stuðningurinn réttlátari, gagnsærri og skilvirkari.“

Niðurgreiðslan verður ekki „falin“ eins og áður heldur mun leigjandinn með þessari breytingu geta séð hver raunleigan er. Nú er málum þannig háttað að fólk fær greiðsluseðil sem á stendur sú upphæð sem það á að borga, eftir að borgin hefur niðurgreitt sinn hlut. Þegar breytingin verður um garð gengin mun heildarleiguupphæðin koma á greiðsluseðlinum en fólk hins vegar fá greiddar húsaleigubætur og sérstakar húsaleigubætur í samræmi við rétt þess hverju sinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert