„Útgerðarmenn áætlunar og hópbifreiða misrétti beittir"

Aðalfundur fyrirtækisins Bíla og fólks ehf. hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem komið er á framfæri mótmælum vegna þeirra hækkana og álaga sem lagðar eru á eldsneyti hópbifreiða og þær bifreiðar sem stunda fólksflutninga á áætlunar og sérleyfisleiðum.

Yfirlýsing Bíla og fólks, sem er þjónustuaðili í sérleyfisakstri sem m.a. sinnir verkefnum fyrir Hópferðamiðstöðina, fer í heild sinni hér á eftir:

„Aðalfundur Bíla og fólks ehf. mótmælir harðlega þeim hækkunum og álögum sem lagðar eru á eldsneyti hópbifreiða og þær bifreiðar sem stunda fólksflutninga á áætlunar og sérleyfisleiðum. Um er að ræða auknar greiðslur til ríkissjóðs í formi virðisaukaskatts vegna hækkunar á eldsneytisverði, en rekstraraðilar hópbifreiða fá ekki innskattinn endurgreiddan. 

Aðalfundurinn  átelur harðlega að útgerðarmenn áætlunar og hópbifreiða séu alvarlegu  misrétti  beittir varðandi greiðslu olíugjalds. Það er kunnara en frá þurfi að segja að þeir sem reka fólksflutninga sem falla undir svokallaðan strætóakstur fá endurgreitt 80% olíugjalds af eldsneyti meðan aðrir fólksflutningsaðilar sem aka etv. á sömu leiðum greiða fullt olíugjald án nokkurs afsláttar.

Væri til dæmis áætlunarbíllinn á milli Akureyrar og Reykjavíkur kallaður strætisvagn, fengju rekstraraðilar hans þennan afslátt á olíugjaldið og gætu því boðið lægra fargjald, en þar sem þessi bifreið kallast rúta en ekki strætisvagn þarf að greiða fullt olíugjald vegna reksturs hans.

Aðalfundurinn telur þessa mismunun vera hróplega óréttláta og bitni hún fyrst og fremst á  landsbyggðarfólki. Aðalfundurinn skorar hér með á ríkisstjórnina að leiðrétta nú þegar þennan mismun og  koma til móts við þau byggðasamlög sem vilja hefja strætóakstur.

Aðalfundur Bíla og fólks ehf. lítur svo á að stjórnvöld verði nú þegar að bregðast við þessu óréttlæti með lækkunum á olíugjaldi vegna farþegaflutninga almennt. 

F.h. aðalfundar Bíla og fólks ehf.

Óskar Stefánsson framkvæmdastjóri."
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert