VG gagnrýna samning um sölu á Fríkirkjuveg 11

Fríkirkjuvegur 11.
Fríkirkjuvegur 11. Friðrik Tryggvason

Fulltrúi Vinstri grænna í borgarráði, Þorleifur Gunnlaugsson, telur fráleitt að undirrita samning þar sem Reykjavíkurborg afsalar sér í raun forræði yfir Hallargarðinum öllum og afhendir þar að auki einkaaðilum lóð sem börn og ungmenni hafa nýtt sér til leikja um áratugi. Þetta kemur fram í bókun VG í borgarráði.

„Garðurinn og gerðið á bak við húsið er í eigu almennings og borgaryfirvöld eiga að hafa fullan og óskoraðan rétt til að sinna honum eins og öðrum opnum svæðum borgarinnar án íhlutunar einkaaðila.
 
Það er óskiljanlegt að meirihluti borgarráðs kjósi að taka þessa ákvörðun í ljósi þess að hún byggir á óskýrum teikningum, ósamræmi á milli teikninga og texta í kaupsamningi og óljósu orðalagi um upprunalega mynd garðsins. Af teikningunni má þó ráða að ætlunin er að rjúfa skarð í veggi sem njóta fornleifaverndar og er það með eindæmum að ekki skuli kveðið á um það í kaupsamningi eða afsali þegar um opinberan aðila er að ræða.
 
Ekki hefur verið leitað umsagnar Húsafriðunar ríkisins þó teikningarnar gefi það í skyn að færa eigi til tröppur og fleira sem telst til næsta umhverfis og útlits friðaðs mannvirkis í opinberri eigu. Þá er án raunverulegs samráðs ætlunin að rústa höfundarverki Jóns H. Björnssonar landslagarkitekts sem hannaði Hallargarðinn.  Þá vekur það furðu að ekki skuli vera ætlunin að hafa  samráð við íbúa svæðisins og loks ekki liggi fyrir lóðaleigusamningur sem á þó að kveða á um aðgang almennings að Hallargarðinum.
 
Vinstri græn lögðust gegn sölu hússins á sínum tíma en hér tekur steininn úr þegar auðmenn fá slík forréttindi til afnota. Borgarfulltrúar hafa nú í vetur ítrekað verið minntir á mikilvægi þess að gæta vel að almannahagsmunum þegar ásælni einkaaðila verður sem áköfust. Meðal annars hefur umboðsmaður Alþingis spurt alvarlegra og gagnrýninna spurninga um ráðstöfun á opinberum eigum sem fulltrúum meirihlutans væri hollt að hafa í huga. Það er skylda kjörinna fulltrúa að gæta hagsmuna almennings en ekki sérhagsmuna einstaklinga, sama hvað þeir heita og sama hvað þeir eru auðugir. Til þess vorum við kosin og þar liggur ábyrgð okkar.

Minnt skal á að Hallargarðurinn er fyrsti skipulagði almenningsgarður borgarinnar og gegnir stóru hlutverki í samkomuhaldi borgarbúa allra á tyllidögum og sem útivistarsvæði fyrir íbúa Þingholtanna alla aðra daga. Vinstri græn munu hér eftir sem hingað til standa vörð um almannahagsmuni en ekki sérhagsmuni auðmanna," samkvæmt bókun VG.
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert