Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks óskuðu í dag eftir því að málefni mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar og framtíðarsýn og stefna meirihlutans í mannréttindamálum yrði sett á dagskrá á næsta fundi borgarráðs. Var jafnframt óskað skriflegra svara borgarstjóra í því efni.
Samkvæmt upplýsingum frá oddvita Samfylkingarinnar í borgarstjórn, Degi B. Eggertssyni, verður mannréttindaskrifstofa borgarinnar óstarfhæf frá og með 1.maí næstkomandi en þá lætur Mannréttindastjóri borgarinnar og eini starfsmaður skrifstofunnar af störfum. Borgarstjóri virðist hafa sett á ráðningabann í mannréttindamálum þar sem ekki hefur verið ráðið í þrjár nýjar stöður á mannréttindaskrifstofuna sem fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir.
„Metnaðaleysi meirihluta Sjálfstæðisflokks og Ólafs F. Magnússonar í að tryggja framgang mannréttindamála hefur verið slíkur, að störfin hafa ekki verið auglýst hvað þá ráðið í þau. Uppsögn Mannréttindastjóra var ekki tilkynnt minnihlutanum fyrr en á fundi mannréttindaráðs í fyrradag þrátt fyrir að Mannréttindastjóri hafi fyrir einhverjum vikum sagt upp. Borgarráðsfulltrúar meirihlutans lásu um hana í blöðunum.
Nú er svo komið að Mannréttindaskrifstofa borgarinnar sem vinnur að málefnum kynjanna, innflytjenda, fatlaðra, aldraða, samkynhneigðra og barna er algjörlega óstarfhæf vegna vanrækslu meirihlutans. Sú óstjórn sem nú ríkir hjá meirihlutanum í borgarstjórn er komin á það stig að ekki tekst að halda grunn starfsemi borgarinnar gangandi, ekki einu sinni þeirri starfsemi sem á að tryggja framgang mannréttinda," samkvæmt upplýsingum frá Degi.