Vilja skoða hugmynd um þjóðarsjóð

 Bæði Geir H. Haarde forsætisráðherra og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra taka vel í hugmyndir Björgólfs Guðmundssonar, formanns bankaráðs Landsbankans, um að settur verði á stofn svokallaður þjóðarsjóður.

Hugmyndina viðraði Björgólfur á aðalfundi Landsbankans á miðvikudag, og segir hann slíkan sjóð, sem gæti haft tekjur af auðlindum landsins og hugviti þjóðarinnar, geta komið að gagni til að verja efnahagslífið og hagstjórnina fyrir áföllum svipuðum þeim sem dunið hafa á síðustu mánuði. Vildi Björgólfur líkja hlutverki slíks sjóðs við norska olísjóðinn, sem hann segir einn helsta þáttinn í efnahagslegum styrk Noregs.

„Ég tel að þessi hugmynd sé allrar athygli verð, en hafa verður í huga að íslensku lífeyrissjóðirnir gegna að mörgu leyti sama hlutverki og olíusjóðurinn norski,“ sagði Geir og bætti við að það væri jafnframt heppilegt ef bankarnir kæmu sér upp öflugum varasjóði til að tryggja sig og sína starfsemi.

„Mér líst ágætlega á þessa hugmynd,“ sagði Ingibjörg. „Slíkur sjóður gæti skipt miklu máli þegar takast þarf á við áföll í efnahagsmálum.“

Spurður um þær tekjuleiðir sem Björgólfur leggur til að sjóðurinn mundi hafa segist Geir ekki geta tekið til þess afstöðu að svo stöddu.

Ingibjörg sagði hins vegar að sér þættu hugmyndir Bjórgólfs um auðlindagjald áhugaverðar: „Ég er sammála því sem kom fram hjá honum, að það sé mikilvægt að stefna að því að innheimt verði almennt auðlindagjald fyrir nýtingu hvort heldur er á vatnsafli, jarðvarma eða sjávarauðlindum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka