Vill taka fjármál Bolungarvíkur föstum tökum

Elías Jónatansson, verðandi bæjarstjóri í Bolungarvík, segir bæjarstjórastarfið krefjandi en býst við að það verði líka skemmtilegt í samtali við Bæjarins besta. Aðspurður um áherslur hins nýja meirihluta segir Elías að fyrsta verk verði að taka fjármál sveitarfélagsins föstum tökum. „Við byrjum á því að fá stöðuna upp á borðið eins og hún er og fara í þær fjárhagsskuldbindingar sem sveitarfélagið er í. Það er búið að fara af stað í ýmis verkefni sem hefur ekki verið gengið frá fjármögnun á.“

Nýr bæjarstjórnarmeirihluti var myndaður í Bolungarvík en fulltrúar A og D lista í bæjarstjórn gengu frá samkomulagi þess efnis í gærkvöldi. Anna Guðrún Edvardsdóttir verður formaður bæjarráðs og forseti bæjarstjórnar kemur úr röðum Sjálfstæðismanna, en ekki hefur verið ákveðið hver það verður.

Elías segist reikna með að bæjarstjóraskipti fari fram á fundi í næstu viku. Aðspurður um það hvort meirihlutaviðræðurnar hefðu tekið langan tíma, segir hann að svo hafi ekki verið. „Mér finnst þetta í raun hafa tekið stuttan tíma. Það reyndist vera þannig þegar sest var niður að áherslurnar voru svipaðar. A-listinn hafði áhyggjur af fjármálunum sem tónaði við okkur“, segir Elías Jónatansson, verðandi bæjarstjóri í Bolungarvík.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka