Vissu af vaktabreytingum í janúar

Erla Björk Birgisdóttir
Erla Björk Birgisdóttir

 „Við heyrðum fyrst af fyrirhuguðum breytingum á vaktafyrirkomulagi skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðinga í janúar sl. á fundi með sviðsstjóra,“ segir Erla Björk Birgisdóttir, trúnaðarmaður skurðhjúkrunarfræðinga á Landspítala í Fossvogi. Segir hún ósannindi að skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðingar hafi vitað af breytingunum undanfarin þrjú til fjögur ár, en í Morgunblaðinu sl. miðvikudag var haft eftir Önnu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar á Landspítala, að umræðan um breytingar á vaktafyrirkomulagi fyrrnefndra starfshópa hefði hafist fyrir fjórum árum og því ekki átt að koma neinum á óvart.

Að sögn Erlu eru skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðingar afar ósáttir við boðaðar breytingar þar sem ljóst megi vera að álag á hjúkrunarfræðinga muni við það aukast, öryggi sjúklinga minnka, launin lækka og vetrarfrí styttast á sama tíma og óhóflegum vinnulotum fækki ekki svo teljandi sé. Vísar Erla þar til röksemda Önnu þess efnis að boðaðar breytingar séu gerðar til þess að fækka löngum vinnulotum hjúkrunarfræðinga sem standi nú stundum vaktina í allt að sextán klukkutíma. En í fyrrnefndu viðtali hennar við Morgunblaðið benti hún á að þessar löngu lotur uppfylli hvorki vinnutímatilskipun EES né vinnuvernd.

Í samtali við Morgunblaðið bendir Erla á að eftir breytingu geti vinnulotan eftir sem áður verið 24 klukkustundir á virkum dögum og allt að 56 klukkustundir um helgar. Hún bendir jafnframt á að samkvæmt nýja kerfinu sparist 26,5 yfirvinnuklukkustundir á viku sem dreifist á alla starfandi skurðhjúkrunarfræðinga á deildinni í Fossvogi sem taka vaktir eða rúmlega 1 klst. á hvern hjúkrunarfræðing á viku. Erla tekur fram að hún sjái ekki hina stórkostlegu breytingu sem í þessu felist. „Þetta er þannig starf að það þarf alltaf einhver að standa vaktina. Þetta er því spurning hvernig fólki er greitt fyrir að standa vaktina. Þ.e. hvort greitt sé með yfirvinnu eða vaktaálagi,“ segir Erla og tekur fram að hjúkrunarfræðingarnir sætti sig ekki við að gerð sé sú eðlisbreyting á starfi þeirra að breyta því úr dagvinnustarfi með yfirvinnu í vaktavinnustarf með vaktaálagi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert