Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði, segir að samkvæmt útreikningum fjármálastjóra Hafnarfjarðarbæjar hefði bærinn verið búinn að hagnast um a.m.k. 1,3 milljarða króna ef gengið hefði verið að tilboði Orkuveitu Reykjavíkur í hlut Hafnarfjarðar í Hitaveitu Suðurnesja í haust sem leið, hluturinn þá seldur, eins og sjálfstæðismenn hafi lagt til, og peningarnir notaðir að hluta til að greiða niður skuldir.
Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær krefst Hafnarfjarðarbær þess að OR standi við gerðan samning frá því í fyrra um kaup á hlut bæjarins í HS og hefur stefnt fyrirtækinu til að greiða bænum um 8 milljarða. Rósa segir að meirihluti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn hafi dregið lappirnar í málinu og vegna ákvarðanafælni sé málið komið í þennan farveg, en vonandi standi samningurinn.
Rósa bendir einnig á að í fjárhagsáætlun fyrir árið 2008 hafi sérstaklega verið tekið fram að ekki þyrfti að taka lán á árinu þrátt fyrir miklar framkvæmdir og fjárfestingar, en fjárhagsáætlunin hafi ekki staðið nema í nokkrar vikur því búið sé að taka 3 milljarða erlent lán til að ná endum saman.