Borgir eiga ekki að vera söfn eða minnisvarðar

Frá fyrirlestrinum Hafnarborgir endurreistar í gærkvöldi
Frá fyrirlestrinum Hafnarborgir endurreistar í gærkvöldi mbl.is/Árni Sæberg

„Það vill engin borg vera eins og Árbæjarsafn,“ sagði Ólafur Elíasson listamaður á fyrsta degi alþjóðlegrar ráðstefnu um hönnun hafnarborga og hlutverk listar í almannarými sem fór fram í Norræna húsinu í gærkvöldi. Með því átti hann við að það yrði sífellt að huga að nútímanum við uppbyggingu og endurnýjun borga þar sem þær væru handa fólki í núinu en ekki söfn eða minnisvarðar. Í sömu mund lagði hann þó áherslu á að Íslendingar stæðu vörð um sérkenni sín og nefndi í því sambandi skammdegi, langa skugga og nánd samfélagsins.

Auk Ólafs flutti bandaríski arkitektinn Christopher Marcinkoski framsögu. Þar sagði hann frá ólíkum leiðum við að byggja upp úr sér gengin svæði innan borgarmarka. Fullt var út úr dyrum á ráðstefnunni og nokkrar umræður að henni lokinni.

Er Ólafur var spurður hvort hann hefði áhyggjur af því eins og sumir að Geirsgata og Kalkofnsvegur mundu skilja tónlistar- og ráðstefnuhúsið um of frá miðborginni sagðist hann vona að gatan yrði grafin niður og kvaðst raunar hafa setið fundi þess efnis. „En í svona lítilli borg eins og Reykjavík skil ég vel að það sé of dýrt. Ég hef þó ekki miklar áhyggjur, því ég tel að Lækjartorg muni ganga í endurnýjun lífdaga á næstu árum og vegalengdin þaðan að tónlistarhúsinu er ekki svo mikil. Aðalmálið er að huga að því hvernig aðkoman verður frá Lækjargötu.“

Síðari hluti ráðstefnunnar fer fram 10. maí nk. Þar munu m.a. flytja erindi Adriaan Geuze sem stofnaði West 8 hönnunarteymið og Ute Meta Bauer, forstöðumaður myndlistardeildar MIT.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert