Eldur var lagður að tveimur blaðabunkum við innganga í sambýlishús að Hraunbæ 4-6 í Árbænum í Reykjavík í nótt. Eldurinn náði að læsa sig í tréþil og þaðan fór hann innundir útidyrnar og logaði eldur í teppi í stigagangi er lögreglu og slökkvilið bar að garði um klukkan 5 í nótt.
Varðstjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sagði að málið væri litið mjög alvarlegum augum og væri í rannsókn. Sót og reyk lagði um stigaganginn og inn í íbúðir.
Lögreglan segir að betur hafi farið en á horfðist en töluvert tjón hafi skapast af íkveikjunni. Málið er í rannsókn.
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins slökkti eldinn á skömmum tíma og voru íbúarnir beðnir að halda sig innandyra á meðan stigagangurinn var reykræstur.