Fríkirkjuvegur 11 ekki seldur?

Fríkirkjuvegur 11.
Fríkirkjuvegur 11. Friðrik Tryggvason

Þorleifur Gunnlaugsson borgarfulltrúi Vinstri grænna telur að ekki sé búið að ganga endanlega frá sölunni á Fríkirkjuvegi 11 og segir hann að enn sé hægt að koma í veg fyrir að kaupandinn fái 750 fermetra leigulóð og heimild til margháttaðra breytinga á almenningsgarðinum utan lóðamarka .

Í átta liða yfirlýsingu frá Þorleifi segir: „Vegna umfjöllunar fjölmiðla um Fríkirkjuveg 11 í vil ég koma á eftirfarandi á framfæri:

    1.    Ekki er búið að ganga frá sölu á Fríkirkjuvegi 11. Það verður í fyrsta lagi gert á fundi borgarstjórnar 6. maí nk. Þar munu 15 borgarfulltrúar taka afstöðu til kaupsamningsins, þar á meðal borgarstjóri en hann hefur ekki atkvæðisrétt í borgarráði.

    2.    Slíkir meinbugir voru á gögnum sem lögð voru fyrir borgaráð í gær að ætla má að borgarráðsfulltrúum hafi verið gert ómögulegt að taka upplýsta ákvörðun og af yfirlýsingum borgarstjóra má ætla að hann hafi verið blekktur.
    3.    Í gögnunum er mikið misræmi á milli texta og teikninga sem eru þó hluti af samningnum.  Þar er m.a. verið að hundsa nauðsynlega deiliskipulagsvinnu vegna hverfisverndar, en hún myndi leiða til lögboðinnar grenndarkynningar og auglýsingar þar sem allur almenningur fengi tækifæri til að koma athugasemdum sínum á framfæri.  Lýðræðisleg vinnubrögð eru því virt að vettugi. Í kaupsamningsdrögum er ekki tekin afstaða til fornminja á svæðinu sem kaupandi hyggst skemma með vitund borgarinnar sbr. teikningar sem fylgdu.

    4.    Borgarstjóri lætur hafa eftir sér í ríkisútvarpinu í gær að ekki sé hægt að hætta við söluna þar sem „bindandi samningur hafi verið kominn á“. Sé  svo, þá á það aðeins við um húsið og 900 m² lóð sem auglýst var til sölu. Á sínum tíma ákvað borgarstjórn eftir miklar umræður að bjóða þetta út og ekkert annað.


    5.    Eftir stendur að í drögum að kaupsamningi hefur verið bætt við 750 m²leigulóð og heimilaðar margháttaðar breytingar á almenningsgarðinum utan lóðarmarka auk þess sem kaupandi fær neitunarvald gagnvart frekari breytingum eftir það.

    6.    Tillögu VG í borgarstjórn 15. apríl s.l. um að leitað yrði leiða til að afturkalla söluna á Fríkirkjuvegi 11 var vísað frá.

    7.    Á næsta borgarstjórnarfundi 6. maí munu fulltrúar VG leggja til að kaupanda hússins verði ekki selt annað en það sem auglýst var til sölu, það er fasteignin að Fríkirkjuvegi 11 og 900 m² lóð.

    8.    Það er með ólíkindum að meirihluti borgarráðs skuli hafa fyrir sitt leyti samþykkt þennan meingallaða samning og lotið þannig ægivaldi fjármagnsins. Það verður hinsvegar borgarstjórn sem tekur endanlega ákvörðun."


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert