Nýstofnuð samtök sem nefna sig Matur ekki einkaþotur hyggjast gefa fátækum, heimilislausum og þeim sem vilja þiggja mat á Lækjartorgi klukkan eitt næstu laugardaga. Samtökin eru byggð á bandarískri fyrirmynd sem nefnist Food not bombs á ensku.
Matinn fá samtökin gefins hjá ýmsum stuðningsaðilum, verslunum og öðrum sem ekki vilja láta nafns síns getið. Einungis er boðið upp á grænmetisfæði til að allir geti notið matarins.
„Þetta er alþjóðleg hreyfing fólks sem pirrar sig á því hvað lítið sé gert í málefnum fátækra og heimilislausra en nægt fé er til fyrir stríðsrekstri," sagði Snorri Jónsson einn af aðstandendum hreyfingarinnar á Íslandi.
„Til að byrja með ætlum við að kalla samtökin Matur ekki einkaþotur þar sem það er ekki mikil tenging við sprengjur hér á Íslandi," sagði Snorri að lokum.