Minni mengun frá álverum

Alcan í Straumsvík
Alcan í Straumsvík mbl.is/Ómar

Losun gróðurhúsalofttegunda vegna álframleiðslu á Íslandi minnkaði um 22% frá árinu 1990 til 2006. Þetta gerðist þrátt fyrir tilkomu Norðuráls og kerskála 3 í Straumsvík en frá 1990 hefur álframleiðsla á Íslandi aukist úr 90.000 tonnum í  270.000 tonn árið 2005, samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun.

Á sama tímabili hefur losun gróðurhúsalofttegunda hjá Alcan á Íslandi minnkað um 50%, samkvæmt upplýsingum frá Guðrúnu Þóru Magnúsdóttur, leiðtoga umhverfismála á þróunarsviði hjá fyrirtækinu, enda þótt framleiðslan hafi tvöfaldast, úr 88.000 í 180.000 tonn.

„Íslensk álver hafa almennt náð mjög góðum árangri í að draga úr mengun. Þau hafa allt að fjögurra ára aðlögunartíma frá því starfsemi hefst til að ná settu marki í þessum efnum og það hefur gengið upp,“ segir Kristján Geirsson, deildarstjóri hjá Umhverfisstofnun. Það má alltaf gera betur og Kristján segir enn svigrúm til að draga úr mengun frá álverum á Íslandi, það felist einkum í því að breyta fræðilegum leiðum í tæknilegar leiðir.

Þetta kemur fram í umfjöllun sunnudagsblaðs Morgunblaðsins um álver en þar er einnig rætt við nokkra starfsmenn Alcan á Íslandi um starfsemina í Straumsvík. Segja þeir fyrirtækið ekki alltaf njóta sannmælis. Guðrún Þóra Magnúsdóttir segir Alcan hluta af samfélaginu hér á landi og vilja vera í sátt við það. „Það hefur samt ekki alltaf tekist. Því miður. Okkur sárnar það enda lítum við svo á að við séum í fremstu röð á ýmsum sviðum og getum um margt verið öðrum fyrirtækjum fyrirmynd.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert