Átta voru fluttir á slysadeild Landspítalans eftir eldsvoðann að Dalbraut 27 í Reykjavík síðdegis í dag. Samkvæmt upplýsingum frá slysadeild voru meiðsl flestra minniháttar nema konunnar sem var í íbúðinni þar sem eldurinn kom upp. Hún liggur alvarlega slösuð á gjörgæsludeild.
Samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossinum veittu níu sjálfboðaliðar og starfsfólk frá Rauða krossinum íbúum hússins að Dalbraut 27 aðhlynningu og sálrænan stuðning en í húsinu eru herbergi og íbúðir fyrir aldraða. Íbúar 16 herbergja gátu ekki snúið heim til sín fyrir nóttina og var Rauði krossinn ásamt starfsfólki Dalbrautar í sambandi við aðstandendur þeirra og útvegaði þeim gistingu sem á þurftu að halda. Þá var starfsfólki boðin áfallahjálp.
Eldurinn kom upp í íbúð á annarri hæð hússins. Ekki er vitað um eldsupptök. Um
klukkan 17:15 var tilkynnt um eldinn og að einn íbúi væri inni í
íbúðinni þar sem eldurinn hafði komið upp og sendu bæði slökkvilið og
lögregla á höfuðborgarsvæðinu mikinn mannskap á svæðið. Reykkafarar
fóru inn og sóttu konuna. Um 50 íbúar í húsinu þurftu á
aðstoð að halda við að komast út úr húsinu.