Landvernd í samvinnu við Lýðræðissetrið, Morgunblaðið og mbl.is efnir til netkosninga um legu Gjábakkavegar. Tilgangurinn er sá, að sögn Bergs Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Landverndar, að leiða í ljós hug almennings til vegalagningarinnar en hann telur að afar fáir styðji áform Vegagerðarinnar um að leggja nýjan Gjábakkaveg.
Áformin hafa verið harðlega gagnrýnd, m.a. af Landvernd sem segir að sá vegur sem Vegagerðin vilji leggja valdi miklu raski á náttúru en þar að auki sé vandséð hvaða þörf sé yfirleitt á að leggja nýjan, uppbyggðan veg. Í nýlegri greinagerð Landverndar er reyndar vakin athygli á því að eitthvað muni muni um að menn í Laugardal og Biskupstungum vonist til að geta selt þar fleiri lóðir undir sumarbústaði verði uppbyggður vegur að veruleika.
Pétur M. Jónasson, vatnalíffræðingur, hefur líklega lengst allra barist gegn vegalagningunni en hann hefur varað við því að lífríki Þingvallavatns sé mikil hætta búin verði hugmyndir Vegagerðarinnar að veruleika. Með slíkum vegi muni niturmengun í vatninu aukast til muna og af þeim sökum verði vatnið, með tíð og tíma, smám saman grænleitt en ekki kristaltært og blátt.. Pétur hefur einnig bent á að staða Þingvalla á heimsminjaskrá UNESCO sé stefnt í tvísýnu verði vegurinn lagður eins og Vegagerðin leggur til. Bæði Pétur og Landvernd hafa áhyggjur af því að gegnumstreymisumferð (umferð sem er á leið annað) um Þjóðgarðinn á Þingvöllum muni aukast stórlega verði leið Vegagerðarinnar að veruleika.
Á kosningavefnum er jafnframt hægt að nálgast ítarlega umfjöllun um Gjábakkaveg,. s.s. skýrslur frá Vegagerðinni, úrskurði sem varða vegalagninguna og fréttir og viðtöl sem birst hafa í Morgunblaðinu. Kjósendur hafa því alla möguleika á að taka upplýsta afstöðu til málsins.
Tæknileg útfærsla er alfarið í höndum Landverndar en aðferðin sem notuð er við kosninguna kemur frá Lýðræðissetrinu. Aðferðin nefnist raðval og er nánar greint frá henni hér til hliðar.
Leiðirnar sem valið stendur á milli eru fimm:
* Leið 1: Núverandi vegur lagfærður, s.s. með því að hækka hann á stöku stað og aðgreina aksturstefnu yfir blindhæðir.
* Leið 2: Leið Vegagerðinnar. Uppbyggður, malbikaður heilsársvegur fyrir 90 km hámarkshraða.
* Leið 3: Norðan Lyngdalsheiðar og sunnar Þingvallavatns.
* Leið 4: Sunnan vatnaskila Þingvallavatns og vestur á Hellisheiði.
* Leið 5: Sunnan vatnaskila og niður Grafninginn, vestan Sogsins.
Tæknilega hliðin á kosningunni er í stuttu máli sú að kjósandi þarf að skrá kennitölu sína og netpóstfang. Jafnfram skráir kosningakerfið ip-tölu tölvunnar en sú skráning er til að verjast því að sami einstaklingur kjósi oftar en einu sinni.
Raðvali er beitt þegar velja þarf á milli fleiri en tveggja kosta, líkt og á við um hugsanlegt vegstæði Gjábakkavegar.
Í stuttu máli virkar raðvalið um Gjábakkaveg þannig að kjósendur raða mismunandi kostum í þá röð sem þeim þykja bestir. Hægt verður að vilja milli fimm kosta og getur kjósandi raðað þeim í sæti frá 1. og niður í 5. sæti. Fyrir 1. sætið eru gefin 4 stig, fyrir 2. sæti eru gefin 3 stig og svo koll af kolli. Sá kostur sem lendir í 5. sæti fær ekkert stig. Alls eru því 10 stig í pottinum
(4+3+2+1=10). Kjósandinn gefur þó ekki stigin, þau eru reiknuð eftir á.Telji kjósandi að einn kostur eða tveir hafi yfirburði fram yfir aðra þarf ekki að gera upp á milli annarra kosta og er stigunum sem eftir skipt á milli þeirra kosta sem ekki er raðað í sæti. Sem dæmi má nefna að ef kjósandi raðar bara í 1. og 2. sæti (gefur 4+3 stig) eru 3 stig eftir í pottinum (2+1 stig fyrir 3. og 4. sæti). Kostirnir þrír sem kjósandinn gerir ekki upp á milli fá því hver um sig 1 stig. Ef aðeins er raðað í efsta sætið fær sá kostur 4 stig en hinir fjórir skipta þeim sex stigum sem eftir eru á milli sín og fá því 1½ stig hver. „Þetta er eins og á skákmóti þegar allir tefla við alla.“
Þessari aðferð, að nota raðval til að gera upp á milli nokkurra kosta, var notuð þegar Þjóðarblómið var valið árið 2004. Í það skiptið bar holtasóley sigur úr býtum en Gleym-mér-ei var í öðru sæti. Björn bendir á að raðval sé mun nákvæmari aðferð við að gera upp á milli mismunandi kosta heldur en hefðbundnar kosningaaðferðir þar sem yfirleitt er aðeins valið um einn kost en fá ekki tækifæri til að segja hug sinn varðandi aðra möguleika.